Miðaldra
Lýsingarorð
- Fólk á ákveðnum aldri, u.þ.b. 40-65 ára.
- Sá eða sú sem kann ekki almennilega á tölvur eða tækni og gerir smávægileg mistök þeim tengd. Í þessu samhengi er stundum sagt að einhver hafi átt „miðaldra móment“.
Sagnorð
Hegða sér eins og eða gera dæmigerða hluti sem miðaldra fólk gerir.
Stundum notað þegar fólk (á hvaða aldri sem er) gerir smávægileg mistök sem til dæmis benda til þess að það kunni ekki nógu vel á tölvur, tækni eða samfélagsmiðla. Þá í samhenginu „miðaldra yfir sig“.
Uppruni
Í hefðbundnu merkingunni hefur orðið verið til frá 17. öld, samkvæmt Ritmálssafni Árnastofnunar.
Seinni merking lýsingarorðsins og merking sagnorðsins hefur verið til a.m.k. frá seinni hluta annars áratugar 21. aldar. Ekki er vitað hver byrjaði að nota hana.
Dæmi um notkun
- Ég ætlaði að senda Palla mynd sem ég tók af okkur um helgina. En ég átti dálítið miðaldra móment þegar ég sendi hana á alla starfsmenn í fyrirtækinu.
- María var alveg að miðaldra yfir sig áðan þegar hún hringdi óvart hópsímtal til allra í spjallhópnum.
- „Sigríður Margrét segir þau hjónin vera að „miðaldra yfir“ sig sem nýliðar í golfi en í skipulagi segist Sigríður Margrét vera dugleg að forgangsraða og taka frá tíma í skilgreind verkefni.“
Vísir 29. ágúst 2020: „Að miðaldra yfir okkur“ í golfi og eiginmaðurinn færir frúnni kaffi í rúmið